Erindisbréf skráningarráðs
Í samningum Landskerfis bókasafna hf. um sérfræðiþjónustu vegna bókasafnskerfis og um afnot af kerfinu segir eftirfarandi í kaflanum um Öryggi og gæði gagna: „Skráningarráð á vegum verksala Landskerfis bókasafna hf. hefur það hlutverk að skera úr um ágreining varðandi skráningu og skráningarheimildir.“
Í viðauka við samningana er fjallað nánar um skráningarráð á eftirfarandi hátt: „Árlega skal verksali Landskerfi bókasafna hf. skipa nefnd sérfræðinga, svonefnt skráningarráð að fenginni tillögu frá stjórn notendafélags kerfisins (Alefli). Skráningarráðið skal setja reglur um bókfræðilega skráningu og ber verkkaupa aðildarsöfnum að hlíta þeim reglum, enda sé markmið þeirra að auka gæði bókfræðilegra gagna í kerfinu. Skráningarráð hefur umboð til að veita skráningarréttindi í kerfinu og afturkalla þau.“
Skráningarráð er skipað fimm sérfræðingum frá mismunandi safnategundum. Skráningarráð velur sér formann og getur skipt með sér verkefnum. Hlutverk skráningarráðs skal endurskoða árlega. Greidd er þóknun vegna setu í skráningarráði.